Erasmus+

Nesskóli er Erasmus skóli og við erum mjög stolt af því. En hvað þýðir það í raun? 

Erasmus+ skóli er skóli sem tekur þátt í Erasmus+ áætluninni, sem er menntaáætlun Evrópusambandsins. Áætlunin styrkir skóla og menntastofnanir til að vinna að alþjóðlegu samstarfi og skiptum. 


Í framkvæmd þýðir það helst: 

Nemendur geta farið í skiptinám eða starfsnám erlendis, oftast í nokkrar vikur eða mánuði. 

Starfsfólk getur farið í starfsþróun, heimsótt samstarfsskóla eða kennt erlendis um tíma. 


Skólinn getur tekið þátt í samstarfsverkefnum með skólum í öðrum löndum, þróað nýjar kennsluaðferðir og deilt reynslu. 

Markmiðið er að efla menntun, auka menningarskilning og veita fólki tækifæri til að kynnast öðrum löndum og menntunarkerfi. Áætlunin nær til allra skólastiga, frá leikskóla til háskóla. 

Þó að Ísland sé ekki aðildarríki ESB tekur landið þátt í Erasmus+ sem samstarfsland svo íslenskir skólar geta sótt um styrki og tekið þátt. 


Þátttaka Nesskóla í Erasmus+ verkefnum hófst 2017. Það ár fór nemendahópur til Haapsalu í Eistlandi. Árgangurinn tók þátt í stóru verkefni með Danmörku, Lettlandi og Eistlandi.  


Síðan þá hefur starfsfólk Nesskóla farið bæði á starfsmannanámskeið, skuggakennslu og í nemendaferðir með nemendum.  


Núna síðustu ár hafa nemendur tekið þátt í minni verkefnum en þó alltaf með einhverju þema. Hægt er að sjá verkefnin hér á heimasíðu skólans.


Hver bekkur býr til heimasíðu sem tengist þeirra verkefni og halda þar úti dagbók þegar þau fara í heimsókn til samstarfsskóla og svo þegar við tökum á móti gestum. Af þessu hafa nemendur kynnst annarri menningu bæði á heimili og í skóla, fengið víðtæka þekkingu á efninu sem verkefnið gengur út á og stækkað tengslanet út í heim.  


Verkefnin sem eru í gangi á yfirstandandi skólaári eru í samstarfi við Olot í Katalóníu, Spáni, og Jelgava í Lettlandi. Gaman er að segja frá því að er þetta í þriðja skipti sem við vinnum verkefni með skóla í Jelgava. Í haust kláraðist verkefni með skóla í Bensberg í Þýskalandi.  


Starfsmenn sem fara á námskeið og skuggakennslu halda kynningu fyrir annað starfsfólk á starfsmannafundi og miðla þannig þekkingu til annara starfsmanna. Þannig gefur Erasmus+ starf Nesskóla bæði beint og óbeint af sér bæði til nemenda og starfsfólks.