Miklar breytingar og kveðjustund í upphafi skólaárs

Miklar breytingar og kveðjustund í upphafi skólaárs

Nú þegar tvær vikur eru liðnar af nýju skólaári er óhætt að segja að mikið sé um að vera í skólanum okkar. Nemendur og starfsfólk eru smám saman að aðlagast nýrri stundatöflu og þó að enn megi sjá fólk ráfa um gangana að finna út hvort þau séu að fara í tíma eða hvort þau hafi hleypt einhverjum of snemma úr tíma þá er það eðlilegur hluti af aðlögunarferlinu í upphafi skólaárs.



Ein merkasta breytingin er nýtt og bætt ritararými sem gerir skólaritaranum okkar, Jóhönnu, kleift að vera sýnilegri og aðgengilegri fyrir alla sem koma í skólann. Þetta nýja fyrirkomulag auðveldar nemendum að leita til hennar með sín málefni og skapar hlýlegra andrúmsloft við inngang skólans. Rýmið verður tekið í notkun í lok September, þangað til er ritarinn á sínum gamla stað.


Skólinn hefur einnig fengið til liðs við sig fjölda nýrra starfsmanna í ýmis störf. Við hlökkum til að kynnast þeim betur og vinna með þeim að því að gera skólastarfið enn betra og fjölbreyttara.


Í dag var sérstök og tilfinningaþrungin stund þegar við fengum heimsókn frá Dagmar Helgu Traustadóttur, eða Dæju eins og hún er alltaf kölluð. Tilefni heimsóknarinnar var að kveðja þennan ástkæra fyrrverandi starfsmann skólans, en Dæja starfaði hjá okkur í heilöld, eða 20 ár. Lengst af gegndi hún starfi skólaritara, eða „Riddara" eins og margir kölluðu hana, og sinnti því starfi af einstakri alúð og natni.

Dæja skilur eftir sig djúp spor í sögu skólans og hefur snert líf fjölmargra nemenda og starfsmanna í gegnum árin. Hún var ekki einungis ritari heldur vinur, ráðgjafi og oft öryggisnet fyrir þá sem til hennar leituðu. Við þökkum henni fyrir ómetanlegt framlag hennar til skólastarfsins og þá hlýju og umhyggju sem hún sýndi öllum þeim „fiðrildabörnum" sem á vegi hennar urðu.


Þó við kveðjum Dæju með söknuði, höldum við áfram að byggja á þeim góða grunni sem hún lagði og tökum fagnandi á móti þeim breytingum og tækifærum sem nýtt skólaár færir okkur.

Eftir Karen Ragnarsdóttir 18. júní 2025
Nesskóli fær styrk til að efla forritun
Eftir Karen 2. maí 2025
Nemendur í 7.-10. bekk eru þessa dagana að taka þátt í afar mikilvægu og áhugaverðu námskeiði um heilbrigð samskipti sem Aflið stendur fyrir. Fyrsti hluti námskeiðsins fór fram 29. og 30. apríl og hefur þegar vakið mikla athygli og áhuga meðal nemenda. Framhaldið er svo væntanlegt 6. og 7. maí þar sem enn frekar verður kafað í þessi mikilvægu málefni.
Eftir Karen 29. apríl 2025
Skólinn okkar hefur náð frábærum árangri og staðist úttekt Miðstöðvar skólaþróunar við Háskólann á Akureyri (MSHA) með glans! Við erum nú opinberlega viðurkenndur Byrjendalæsisskóli, sem er gríðarlega mikilvægur áfangi í sögu skólans okkar!