Saga Nesskóla

Í Neskaupstað búa í dag (2023) um 1500 manns. Í bænum er öflugt skólasamfélag og er þar auk Nesskóla, Tónskóli Neskaupstaðar, Verkmenntaskóli Austurlands, íþróttahús, sundlaug og gervigrasvöllur. Nesskóli var formlega stofnaður árið 1909 í Nesþorpi og luku 16 nemendur prófi frá honum vorið eftir. Árið 1911 var reist sérstakt skólahús og var það fyrsta steinsteypta húsið í þorpinu. Árið 1931 var svo tekið í notkun glæsilegt skólahúsnæði, teiknað af Guðjóni Samúelssyni, húsasmíðameistara ríkisins. Þegar ákveðið var, rétt fyrir aldamótin 2000, að einsetja grunnskólana var ráðist í allmiklar breytingar og viðbyggingar við Nesskóla. Það var svo árið 2005 að endurbættur skóli var formlega tekinn í notkun. 

Hér áður var rekinn skóli á Kirkjumel sem þjónustaði Norðfjarðarsveit, en árið 1994 hófst skólaakstur barna úr sveitinni í Nesskóla. Lengst af hýsti Nesskóli 1. – 7. bekk og unglingadeildir voru til húsa í Verkmenntaskóla Austurlands vegna plássleysis í Nesskóla. Rétt fyrir aldamótin 2000 var tekin ákvörðun um einsetningu á Nesskóla. Í kjölfarið var farið í allmiklar breytingar og viðbyggingu við Nesskóla til að geta hýst alla nemendur skólans. Nýtt skólahúsnæði var formlega tekið í notkun árið 2005. Í dag eru allir nemendur skólans í sama húsnæði auk þess að húsnæðið er nýtt undir Vinasel (lengri viðveru barna á yngsta stigi), Tónskóli Neskaupsstaðar og almenningsbókasafn bæjarins sem einnig er skólabókasafn. Öll aðstaða er nú til fyrirmyndar.