Stoðþjónusta skólans

Í lögum um grunnskóla (nr. 91/2008) er kveðið á um að skólinn skuli haga störfum sínum í samræmi við námsþarfir hvers nemanda, í almennum grunnskóla án aðgreiningar án tillits til líkamlegs eða andlegs atgervis. Skóli án aðgreiningar er opinber menntastefna á Íslandi og í Aðalnámskrá grunnskóla (2011) kemur fram að í skóla án aðgreiningar ríki ákveðið viðhorf sem einkennist af virðingu fyrir rétti allra nemenda til virkrar þátttöku í námssamfélagi heimsaskóla. Þar er borin virðing fyrr fjölbreytileika og mismunandi þörfum, hæfileikum og einkennum nemenda og leggja skal áherslu á að útrýma öllum gerðum mismununar og aðgreiningu í skólum.

Stoðþjónusta Nesskóla byggir á þverfaglegu samstarfi í árgangateymum skólans. Teymin eru skipuð umsjónarkennurum, fagaðilum úr stoðþjónustu (þroskaþjálfa, iðjuþjálfa, tómstundafræðingi, sérkennara eða einstaklingum með aðra sambærilega menntun) og stuðningsfulltrúum. Árgangateymunum er falið að mæta þörfum nemendahópsins þar sem sjónum er beint að þjónustuþörf nemendanna en ekki greiningum, þ.e. formleg greining er ekki forsenda þjónustu. Árgangateymunum er ætlað að skapa menningu sem virðir og fagnar margbreytileikanum. Þau kortleggja, skipuleggja og framkvæma nám og kennslu fyrir allan nemendahópinn og koma til móts við stuðningsþarfir hvers og eins nemanda. Árgangateymin eru misfjölmenn, allt eftir þörfum nemendahópsins fyrir þjónustu og/eða stuðning.