Gæðastund

Gæðastund-börnin okkar og heimanámið!

 

 Heimanám á að vera fastur liður í lífi barna og unglinga í  Nesskóla. Í skólastefnu skólans er lögð áhersla á skipulagt heimanám í góðri samvinnu við fjölskyldur. Það skiptir miklu máli fyrir börn og unglinga að alast upp við það að foreldrar fylgist með heimavinnunni og aðstoði eftir þörfum. Það er auðvitað ekki hægt að ætlast til þess að allir foreldrar hafi tækifæri til að aðstoða eða útskýra námsefni í öllum námsgreinum t.d. í unglingadeild. En það að vera til staðar, sýna áhuga og aðstoða við að skipuleggja heimanámið er eitthvað sem allir geta gert.

Nokkur grundvallaratriði sem auðvelda heimanám:

  • Góð aðstaða, friður og ró eru lykilatriði til að tryggja gott og árangursríkt nám.

 

  • Yngri nemendur vilja oft fá að læra í návist foreldra og það er hið besta mál. En þess verður að gæta að yngri systkini, útvarp eða sjónvarp trufli ekki námið. Ef vinir eða félagar ætla að læra saman þarf það að vera undir sérstaklega góðu eftirliti því reynslan sýnir að góður tími fer oft fyrir lítið.
  • Best er að læra alltaf á sama stað þar sem öll hjálpartæki eru við höndina og það á alls ekki að leyfa krökkum að læra fyrir framan sjónvarp eða hafa opið fyrir MSN á meðan að verið er að læra.
  • Það er ekki góður siður að læra seint á kvöldin. Best er að ljúka heimavinnunni fyrir kvöldmat. Aldur nemenda skiptir hér máli en unglingar eiga alls ekki að læra þegar komið er fram á kvöld.
  • Foreldrar verða að gera greinarmun á því að leiðbeina við heimanám og því að vinna verkefnin fyrir krakkana eða segja þeim svörin án þess að gefa þeim tækifæri til að leita eða uppgötva sjálf. Með aldrinum á ábyrgðin á heimanámi að færast smátt og smátt frá foreldrum yfir á nemendur. Þegar komið er á unglingsár má gera þá kröfu til nemenda að ábyrgðin sé þeirra.
  • Þegar nemendur sinna heimanámi verður að sjá til þess að ekki sé setið það lengi við að einbeitingin sé farin út í veður og vind. Það er mun árangursríkara að vinna í styttri lotum með hvíld á milli. Lengd vinnulotu fer bæði eftir aldri og einstaklingum.

 

 

  • Það er gott að temja sér þá vinnureglu að byrja að læra heima það sem er erfitt og krefst athygli en vinna síðar þau verkefni sem eru aðgengilegri.
  • Foreldrar jafnt sem kennarar verða að passa sig á því að bera ekki saman námsárangur eða vinnulag systkina.
  • Það er ágætt að benda á framför t.d. á milli ára. Jákvæð hvatning er mikilvæg en mikil pressa og væntingar geta auðveldlega brotið niður sjálfsmyndina. Foreldrar og kennarar verða að gæta þess að gera ekki ósanngjarnar eða óraunhæfar kröfur. Kröfur verða að vera í samræmi við getu hvers og eins.
  • Jákvæð viðhorf foreldra til skólans og heimanáms auðveldar flest viðfangsefni og nemendur ganga jákvæðari og viljugri til verka.
  • Þegar tækifæri gefst og fyrir próf er gott að þjálfa börn og unglinga í virkri upprifjun, einnig er ástæða til að vekja athygli á góðu námsefni fyrir alla á www.skolavefur.is og www.nams.is.
  • Það veitir nemendum öryggiskennd ef þeir vita að foreldrar eiga í góðu sambandi við kennara. Vert er að minna á Mentor en þar er hægt að fylgjast með frammistöðu í skólanum og því sem á að læra heima. Einnig geta foreldrar haft samband við kennara í viðtalstímum eða nýtt sér netpóst. Á heimasíðu skólans er einnig að finna upplýsingar um almennt skólastarf og því nauðsynlegt að fara reglulega inn á síðuna.

Ef upp koma athugasemdir eða spurningar er alltaf hægt að hafa samband við Brynju Garðarsdóttur náms og starfsráðgjafa – brynja@skolar.fjardabyggd.is – hringja í síma 4771124  eða 4771108 eða koma í skólann .

 

Heimildir: Skólanámskrá 

Heimanám fyrir börn og foreldra – útg. Heimili og skóli.