Fréttir vikunnar

Allt farið að ganga sinn vanagang í skólanum, það er enn gott veður og nýttum við það vel í útiveru. Fórum við meðal annars í göngu upp í fjall með öll stig. Yngsta stig gekk snjóflóðagarðana, gengu meðfram skógrækt og upp á efstu keilur og inn eftir og svo göngustíg til baka. Miðstig gekk upp að Hrafnakirkju, gengu meðfram skógrækt og svo að áfangastað. Unglingastig fór svo upp í Rósubotna og þeir allra hörðustu fóru alla leið upp í Drangaskarð og sáu ofan í Mjóafjörð. Voru allir hæst ánægðir með göngurnar en frekar þreyttir og fannst frekar krefjandi að ganga þessar leiðir. Kosturinn við að ganga frá skólanum var að það var algert val hvers og eins að fara ekki alla leið að Hrafnakirkju eða upp í Rósubotna. Þeir sem ekki treystu sér í skriðurnar fóru aðra leið eða létu sér nægja að labba upp að skriðum á meðan aðrir fóru upp skriðurnar og stoppuðu þar og fóru t.d. ekki alla leið upp í Rósubotna. Sumir létu sér nægja að ganga rétt ofan skógræktina á meðan aðrir fóru aðeins aðra leið en hinir að sama áfanga stað. Yngsta stig óð læki og léku sér við enda leiðigarðs hjá minnismerki um snjóflóðin og skemmtu sér konunglega. Starfsfólk gat dreift sér vel fyrir þessar aðstæður og nutu samveru með nemendum. 

Yngsta stig kynnti sér lego kennslu sem verður upplýsingatæknimennt kennsla í vetur ásamt öðru sem við kemur upplýsingatækni. Það verður virkilega gaman að fylgjast með þeirri þróun. 

Ólöf auglýsti eftir kuðungum og skeljum til að láta teikna eftir og fékk góða sendingu frá einu foreldri í skólanum, Ásgeiri Jónssyni. Hann kom færandi hendi með allskonar sjávardýr fyrir myndmenntina. Ólöf leyfði okkur að koma og skoða. Þökkum við Ásgeiri kærlega fyrir þessa frábæru sendingu. Meðfylgjandi eru myndir af 2.GS skoða afurðirnar og eins og sést þá finnst ekki öllum lyktin vera góð. En það er því líkur fengur að fá svona sendingu inn í skólann sem gerir kennsluna mikið skemmtilgri fyrir vikið.

Kennarar og starfsfólk byrjuðu flest allir í menntafléttu og eru á námskeiði sem heitir Leiðsagnarnám og er það innleiðingarverkefni sem skólinn er að vinna að í vetur. 

Hægt er að skoða myndamöppu hérna frá gönguferðunum.

Í lokin minnum við á starfsdag föstudaginn 15.september, sem er í næstu viku.