Heil skólavika að baki

Mynd: Gunna Smára
Komdu sumrinu þínu eða atburði tengdur sumrinu þínu á blað með þinni aðferð á 17 …
Mynd: Gunna Smára
Komdu sumrinu þínu eða atburði tengdur sumrinu þínu á blað með þinni aðferð á 17 mín.

Þá er komin fyrsta heila skólavikan í vetur og er nú ýmislegt búið að gerast. En það má alveg segja að börnin eru að koma vel undan sumri og sér maður glaða krakka á göngum skólans alla daga. 

Á fimmtudaginn ætluðum við að fara í göngu enda stefndi í gott veður. En þokan var ekki með okkur í liði í vikunni svo við urðum að fresta henni. En við reynum bara aftur síðar. Kosturinn er að við erum að fara gönguleiðir út frá skólanum og getum farið hvenær sem er svo framarlega að við getum fengið samlokur frá eldhúsinu okkar, sem eru með eindæmum góð að redda okkur oft á síðustu stundu og erum við afar þakklát fyrir þeirra starf. 

Eitt af verkefnum í vetur eru tímar á miðstigi sem heita Bland í poka, stýrir Gunna Smára þeim tímum. Bland í poka eru listsköpunartímar og verður farið í allskonar vinnu í vetur því tengt. Fyrsta verkefnið var "Komdu sumrinu þínu eða atburði tengdur sumrinu þínu á blað með þinni aðferð á 17 mín". Hérna er svo smá sýnishorn úr 6. HB, takið eftir bátnum.

Komdu sumrinu þínu á blað

Það verður gaman að fylgjast með starfinu í vetur enda margar áhugaverðar nýjungar í gangi í okkar skólastarfi.

Meðfylgjandi eru einnig myndir frá 5.GJS en þau fóru að tálga og svo var farið í leik sem reynir á samvinnu nokkra einstaklinga. Leikurinn er þannig að hver hópur fær teygjur, spotta og glös. Á hópurinn að stafla glösunum í pýramída og ganga frá þeim aftur án þess að snerta glösin. Auðvitað þarf að undirbúa spottana og teygjur fyrst svo þetta sé gerlegt. Samvinnan er eitthvað sem við reynum að vinna með alla daga enda er það vinna sem allir þurfa að horfast í augu við alla ævi. 

Hlökkum við til næstu viku enda er engin vika eins í Nesskóla.

5.GJS